30.3.2007 | 22:27
Ábyrgð Hafnfirðinga!
Það er þung sú byrgði sem hafnfirðingar þurfa að bera þessa daganna. Þeir standa í þeim sporum að ákveða hvort framtíðarbyggingarlandi Hafnarfjarðar sé eitt í forneskjuiðnað eða nýtt til uppbyggingar á sínum annars mjög fallega bæ. Það vita það allir að álver Alcan mun ekki loka fyrr en eftir 25-30 ár í núverandi mynd og þegar sá tími kemur munu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði grípa þetta land fegins hendi því að landnæði er farið að verða af skornum skammti nú þegar svo að framtíðin liggur undir þessu álveri. Og þá meina ég UNDIR álverinu. Lóðin sem álverið er á verður miklu mikilvægari sem byggingaland en menn geta ímyndað sér í dag. Haldiði virkilega að hið alþjóðlega stórfyrirtæki Alcan sé ekki nokkurnveginn alveg nákvæmlega sama um heilsufar, atvinnuástand eða bæjarbrag einhvers "krummaskuðs" uppá Íslandi. Þeir hugsa um ódýrt rafmagn, sem þýðir aukna arðsemi, sem þýðir aukinn hagnaður, sem þýðir meiri velsæld fyrir hluthafa og eigendur. Hvað Rannveigu Rist finnst, kemur málinu bara ekkert við. Hún er starfsmaður fyrirtækisins og ef hún vinnur vinnuna sína ekki eftir vilja eigendanna, þá verður hún einfaldlega rekin. Hvort álverið er í hafnarfirði eða Hamburg skiptir þá engu máli. Og ef eftir 10 ára starfsemi í nýju risaverksmiðjunni kemur í ljós að hún er ekki að skila þeim arði sem ætlast er til. Þá er bara lokað. En hvað erum við þá búin að gera. Virkja enn einu sinni í Þjórsá , bora í sundur Hellisheiði, Brennisteinsfjöll, og víðar á Reykjanesi. Og vegna þess að allir kappkosta að komast í þessa yndislegu Álvers-vinnu þá verður búið að gelda víðsýni, frumkvöðulshugsun og framtaksemi sem enn finnst meðal vor.
Kæru Hafnfirðingar. Ég vona okkar allra vegna að þið sjáið sóma ykkar í því að kjósa gegn þessari breytingu á deiliskipulagi svo að við öll getum andað léttar um komandi ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.