6.10.2010 | 08:25
Hvar liggur rót vandans?
Það sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er afleiðing þess að grunnhugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins gekk óáreitt í 18 ár. Frelsi einstaklingsins var algert, eftirlitsstofnanir fjársveltar og þar afleiðandi eftirlit ófullnægjandi, hinir efnameiri fengu tækifæri umfram almúgan og molarnir áttu að detta af borðum stórfyrirtækja til undirmáls fólks. Síðast en ekki síst, einkavæðing gróðans og ríkisvæðing skuldanna.
Þessi hugmyndafræði var ráðandi meðan hægri flokkar réðu hér ríkjum og það leiddi okkur í hrunið. Nú eru vinstri flokkarnir að reyna að hreinsa til og það er ærið, jafnvel óviðráðanlegt verkefni.
Sú hugmynd að AGS sé að leggja línurnar er sennilega nokkuð rétt þegar horft er til þess gríðarlega niðurskurðar sem er lagður á heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið. Ég get ekki ímyndað mér það að niðurskurður í þessum hluta ríkisfjármálanna sé vinsæll hjá nokkrum manni með vinstri hugsjónir.
Persónulega þykja mér síðustu niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum ógeðfeldar í besta falli. Ég skora á flokkana að endurskoða þessi áform þegar búið er að gera lánaumhverfi millistéttarinnar aðeins viðráðanlegra. Ég vona innilega að þjóðin gleymi ekki þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til eingöngu bera hag hinna efnameiri fyrir brjósti og allur fagurgali mætti auðveldlega kalla hræsni.
Fela sig á bak við AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.